Innlent

Telur bæinn ógna fornminjum

Herjólfsbærinn. Hér má sjá tölvugerða mynd af Herjólfsbænum eins og hann mun líta út. Hugmynd félagsins er að húsið verði öllum opið. Safnvörður í Byggðasafni Vestmannaeyja efast um gildi hússins og óttast um fornminjar sem eru órannsakaðar.
Herjólfsbærinn. Hér má sjá tölvugerða mynd af Herjólfsbænum eins og hann mun líta út. Hugmynd félagsins er að húsið verði öllum opið. Safnvörður í Byggðasafni Vestmannaeyja efast um gildi hússins og óttast um fornminjar sem eru órannsakaðar.

"Þetta er á órannsökuðu svæði. Það hefur ekki farið fram endurmat á minjum í dalnum en fornleifanefnd ríkisins er komin í það mál," segir Hlíf Gylfadóttir, safnvörður í Byggðasafni Vestmannaeyja.

Herjólfsbæjarfélagið vinnur nú að því að reisa hús í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Húsið er byggt eftir hugmyndum um hvernig byggingar litu út á landnámstíma. Hlíf hefur ritað greinargerð þar sem hún lýsir miklum efasemdum um ágæti framkvæmdarinnar og telur að hugsanlegar mannvistarleifar í Herjólfsdal kunni að vera í hættu.

Í greinargerðinni segir Hlíf að sögulegt gildi hússins sé ekki til staðar og fullyrðir að það gefi svæðinu ekki aukið menningarlegt gildi. "Það er rík ástæða til þess að skoða Herjólfsdalinn nákvæmlega og fara vel yfir það hvort þarna kunni að vera einhverjar mannvistarleifar," segir Árni Johnsen, en hann er forsvarsmaður Herjólfsbæjarfélagsins. "Það var gerð úttekt á svæðinu fyrir átta eða níu árum og í kjölfarið var gefið út deiliskipulag þar sem samþykkt var að byggja á tveimur reitum. Þetta er annar þeirra," segir Árni.

Árni segir að þegar farið var út í jarðvegsskipti undir Herjólfsbænum hafi ekkert komið upp úr krafsinu annað en urð, grjót og mold. "Því miður fundust engar beinagrindur. Ef við hefðum fundið einhverjar rústir undir húsinu þá hefðum við náttúrulega tilkynnt það og stöðvað framkvæmdirnar," bætir hann við.

Árni kveður hugmyndina að bænum ekki vera nýja af nálinni. Þarna eigi að byggja í anda þeirra rústa sem fyrir eru í dalnum sem hann segir vera einar af best geymdu rústum landsins. "Herjólfsbæjarfélagið er áhugamannafélag samsett af einstaklingum og fyrirtækjum. Bærinn kemur þarna hvergi nálægt," útskýrir Árni. Hann er ekki tilbúinn til að gefa upplýsingar um kostnaðinn við bygginguna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×