Innlent

Samruni 365 og Saga film skilyrtur

Útsendingarstjórn stöðvar tvö. 365 ljósvakamiðlar ehf. eiga og reka fjölda sjónvarps- og útvarpsstöðva. Myndin er tekin í síðasta fréttatíma Stöðvar tvö sem sendur var út frá Lynghálsi í Reykjavík, en sú starfsemi hefur nú færst yfir í Skaftahlíð þar sem fleiri miðlar 365 halda til.
Útsendingarstjórn stöðvar tvö. 365 ljósvakamiðlar ehf. eiga og reka fjölda sjónvarps- og útvarpsstöðva. Myndin er tekin í síðasta fréttatíma Stöðvar tvö sem sendur var út frá Lynghálsi í Reykjavík, en sú starfsemi hefur nú færst yfir í Skaftahlíð þar sem fleiri miðlar 365 halda til.

Samkeppniseftirlitið tel­ur samruna 365 ljósvakamiðla ehf. og fyrirtækisins Saga film ehf. skaðlegan samkeppni og hefur sett honum skilyrði. Farið er fram á fullan rekstrarlegan og stjórn­un­ar­legan aðskilnað milli 365 ljósvakamiðla og tengdra fyrir­tækja annars vegar og Sögu film hins vegar.

Í úrskurði Samkeppniseftirlits­ins kemur fram að skilyrðin séu sett til að koma í veg fyrir hags­munaárekstur og tortryggni um upp­lýsingastreymi um keppi­nauta 365 ljóvakamiðla.

"Við erum mjög ánægðir með þennan úrskurð," segir Gunnar Smári Egilsson, forstjóri 365 miðla. "Hann er í takt við það sem við bjuggumst við og vildum fá."

Hann segir áður hafa komið fram að hugmyndin með kaupum 365 á Saga film hafi ekki verið að setja það fyrirtæki inn í rekstur 365, heldur hafi átt að flytja hluta af rekstri 365 inn í Saga film og bygg­ja upp sjálfstætt fyrirtæki.

"Úrskurð­ur Samkeppnisstofnunar er á engan hátt íþyngjandi eða trufl­ar okkar fyrirætlanir," segir hann og gerir ekki ráð fyrir að úr­skurð­ur­inn verði kærður. "Ég á ekki von á því, þó auðvitað sé ýmislegt í honum sem við hefð­um ekki afgreitt með sama hætti. Almennt undirstrikar hann bara vilja okkar til að Saga film verði sjálf­stætt fyrirtæki, á sama hátt og önnur fyrirtæki sem við tengjumst."

Gunnar Smári nefndi þar fyrirtæki á borð við Ísa­fold og Pósthúsið sem bæði væru sjálfstæð. "Öfugt kannski við önnur fjölmiðlafyrirtæki sem hafa dreifingu, prentun og sjón­varps­framleiðslu inni í sjálfu fyrir­tækinu. Okkar stefna hefur verið að kljúfa þetta frá þannig að þessi fyrirtæki fái starfað og vaxið á eigin markaði og á eigin forsendum."

Meðal skilyrða sem Sam­keppnis­eftirlitið setti fyrir sam­runa fyrir­tækj­anna var að stjórnar­menn, starfsmenn og eigendur að meira en 1 prósents hlutar í 365 ljós­vaka­miðlum og eða tengdum fyrir­tækjum, megi ekki sitja í ­stjórn eða varastjórn Saga film og það sama gildi um maka, skyldmenni í beinan legg eða systkini.

Þá er framkvæmdastjóra, ­starfs­­mönn­um og stjórnarmönnum Saga film bannað að veita öðrum upplýsingar um við­skipti, viðskipta­kjör og starfs­fólki, eigend­um og stjórnar­mönn­um bæði hjá Saga film og 365 ljós­vaka­miðl­um gert að skrifa undir yfir­lýsingu um þagnarskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×