Innlent

Fjármagna kaupin með kvóta

Samherji
Samherji

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. á Akureyri hefur á tveimur árum selt frá sér liðlega sex þúsund þorskígildistonn. Á sama tímabili leigðu Brim og Samherji hf. frá Akureyri samtals um 16 þúsund þorskígildistonn. Þar af leigði Samherji frá sér tæplega 10 þúsund en Brim rúmlega 6 þúsund þorskígildistonn.

Stórtækust í kvótaútleigu auk Samherja og Brims eru Vinnslustöðin, HB Grandi og Skinney- Þinganes, en öll leigðu þau frá sér meira en þrjú þúsund þorskígildistonn á tímabilinu.

Þetta kemur fram í skriflegu svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem lagt var fram fyrir helgina. "Það er ljóst að sala aflaheimilda og leiga er að aukast og verðið hefur hækkað líka. Stóru tölurnar frá Akureyri vekja athygli mína. Þaðan hefur Brim endanlega selt sex þúsund tonn. Aflaheimildir sem nema um 22 þúsund þorskígildistonnum eru að minnsta kosti ekki nýttar á Akureyri," segir Jóhann.

"Það er nauðsynlegt að vita á hvaða hreyfingu aflaheimildirnar eru. Mönnum tekst með þessum braskaðferðum að halda uppi mjög háu verðlagi á aflaheimildum, bæði í sölu og leigu þeirra. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur til að mynda borið uppi sinn rekstur með því að leigja frá sér aflaheimildir á þessu verði. Ég tel einnig greinilegt að eigendur Brims eru að selja og leigja frá sér kvóta til að fjármagna kaupin á fyrirtækinu," segir Jóhann Ársælsson.

"Við lítum á Ísland sem eina verstöð. Það breytir ekki öllu fyrir okkur hvar skipin eru skráð. Það er ekki hægt fyrir útgerðarfyrirtæki að halda úti byggðastefnu. Samherji geymir til dæmis kvóta á Háberginu sem er skráð í Grindavík," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×