Innlent

Mál Litháa í Félagsdóm

Sóleyjarimi í Reykjavík. Hópur Litháa starfar við byggingu fjölbýlishúss í Sóleyjarima. Verkalýðshreyfingin óttast að mennirnir séu á of lágum launum og ætlar að höfða mál fyrir Félagsdómi til að fá úr því skorið. Verður málið sent fyrir dóminn í næstu viku.
Sóleyjarimi í Reykjavík. Hópur Litháa starfar við byggingu fjölbýlishúss í Sóleyjarima. Verkalýðshreyfingin óttast að mennirnir séu á of lágum launum og ætlar að höfða mál fyrir Félagsdómi til að fá úr því skorið. Verður málið sent fyrir dóminn í næstu viku.

Samiðn ætlar að höfða mál fyrir Félagsdómi til að fá upplýsingar um kjör hóps Litháa sem starfar við byggingu fjölbýlishússins að Sóleyjarima 15 og 17 fyrir verktakafyrirtækið Sóleyjarbyggð. Samiðn telur að mennirnir, sem hafa komið hingað á vegum litháískrar starfsmannaleigu, séu á allt of lágum launum.

Þetta er í fyrsta skipti sem mál vegna starfsmanna á vegum erlendrar starfsmannaleigu er sent fyrir Félagsdóm. Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, segir að allt að tólf Litháar hafi starfað hjá Sóleyjarbyggð mestallt þetta ár þó að í augnablikinu séu þeir bara átta, fjórir sem nú séu komnir í beint ráðningarsamband við fyrirtækið og fjórir sem enn séu hér á vegum starfsmannaleigunnar. Talið er að mennirnir hafi verið látnir ganga í öll störf.

Finnbjörn segir að Samiðn hafi reynt að komast að því á hvaða launum mennirnir séu en ekki hafi fengist óyggjandi upplýsingar um það. Svo virðist sem mennirnir séu á of lágum grunnlaunum og staðaruppbót. Verkalýðshreyfingunni sýnist þeir fá 400 krónur á tímann en eiga rétt á 988 krónum á tímann.

"Sóleyjarbyggð ber að standa við íslenska kjarasamninga eins og öllum öðrum. Þeir hafa allar upplýsingar um það á hvaða launum mennirnir eru þó að þeir skýli sér á bak við starfsmannaleiguna. Þeim ber að skila staðgreiðslu og halda tímaskýrslu. Þeir vita upp á hár á hvaða launum mennirnir eru," segir Finnbjörn.

Róbert Jón Jack rafvélavirkjameistari á Sóleyjarbyggð með bróður sínum Davíð. Hann segir Litháana vinna sem handlangara og vera á íslenskum taxta. Verkalýðshreyfingin hafi "fengið allar upplýsingar sem þeir þurfa og vilja" en í síðasta bréfi frá verkalýðsfélaginu hafi fyrirtækinu verið hrósað fyrir að vera til sóma með aðstöðu og laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×