Innlent

Ríkissaksóknari mætti ekki í réttinn

Bogi Nilsson ríkissaksóknari. Dómarar vilja vita hvort sækjandi í Baugsmálinu starfi í umboði Boga eða Sigurðar T. Magnússonar, setts ríkissaksóknara.
Bogi Nilsson ríkissaksóknari. Dómarar vilja vita hvort sækjandi í Baugsmálinu starfi í umboði Boga eða Sigurðar T. Magnússonar, setts ríkissaksóknara.

Ágreiningur um æðsta ákæruvald yfir átta ákærum í Baugsmálinu, sem nú eru til efnislegrar meðferðar, verður reifaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að dómurinn hafi boðað Boga Nilsson ríkissaksóknara til þinghalds í málinu síðastliðinn mánudag til að skýra málið, en hann hafi ekki séð ástæðu til að mæta.

Pétur Guðgeirsson dómari upplýsti í þinghaldinu þá að Bogi teldi ákærurnar átta sér óviðkomandi. Dómararnir vilja að það liggi skýrt fyrir hvert sé æðsta ákæruvald yfir Jóni H. B. Snorrasyni saksóknara varðandi ákærurnar átta, en hann sækir málið.

Jón sagði í réttinum á mánudag að ef á það reyndi starfaði hann í umboði setts ríkissaksóknara. Bogi Nilsson ríkissaksóknari hafði 11. október tekið til athugunar 32 ákærur, sem dómstólar höfðu vísað frá. Síðar taldi hann sig vanhæfan til verksins og sagði sig frá málinu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra setti Sigurð T. Magnússon sérstakan ríkissaksóknara í Baugsmálinu tíu dögum síðar. Ráðherrann tók fram að settur ríkissaksóknari færi með allt málið, einnig ákærurnar átta.

Bogi Nilsson ríkissaksóknari tók hins vegar fram í bréfi til dómara og dómsmálaráðherra 3. nóvember að forræði á þeim hluta málsins, sem ekki var vísað frá dómi, væri í höndum ríkislögreglustjóra. Hann sem ríkissaksóknari hefði aldrei tekið við því forræði úr hans hendi.

Verjendur hafa og krafist þess að dómstólinn úrskurði um hæfi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til að skipa sérstakan ríkissaksóknara. Sú krafa var fyrst gerð þegar ljóst virtist í réttinum á mánudag að Sigurður T. Magnússon væri æðsta ákæruvald varðandi ákærurnar átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×