Innlent

Þurfa að finna annað hús

Örn Ægir Óskarsson verkamaður er ósáttur við framgöngu Hafnarfjarðarbæjar. Lögmaður Arnar er bjartsýnn á að viðeigandi lausn finnist.
Örn Ægir Óskarsson verkamaður er ósáttur við framgöngu Hafnarfjarðarbæjar. Lögmaður Arnar er bjartsýnn á að viðeigandi lausn finnist.

"Ég hef það slæmt. Það gengur ekkert með húsið og ég get alveg eins keypt mér gám og búið í honum," segir Örn Ægir Óskarsson verkamaður, sem býr við Vesturgötu 16 í Hafnarfirði. Fyrr á þessu ári skemmdist hús Arnar á Vesturgötunni í sprengingum í tengslum við framkvæmdir Hafnarfjarðarbæjar í nágrenninu.

Hús Arnar er talið ónýtt eftir sprengingarnar og leiddar eru líkur að því að klöppin undir því sé sprungin að því marki að hún muni skemmast frekar á næstu vetrum.

"Líklegasta lausnin á málinu er að finna sambærilegt hús á svipuðum slóðum," segir Jón Briem hæstaréttarlögmaður, en hann hefur tekið að sér málið fyrir Örn.

Jón segir bæinn hafa reynt að finna slíka eign en það hafi gengið erfiðlega. "Það er verið að gera nýtt verðmat á eigninni og þetta er allt í farvegi," segir Jón. Í sprengingunum, sem framkvæmdar voru í mars á þessu ári, mynduðust sprungur í veggjum hússins og hillur hrundu niður.

Fulltrúi verktakanna sem framkvæmdu sprengingarnar lýsti því yfir á sínum tíma að þær hefðu verið í eðlilegri fjarlægð frá byggð í nágrenninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×