Innlent

Samningar í hættu semjist ekki í kvöld

Forsendunefndin þarf að ná niðurstöðu fyrir miðnætti.
Forsendunefndin þarf að ná niðurstöðu fyrir miðnætti.

"Það er frekar jákvæður tónn í þessu öllu saman. Það er ekki hægt að segja annað en að það sé gangur í viðræðunum, en þetta er ekki búið fyrr en það er búið eins og sagt er," sagði Gylfi Arnbjörnsson í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.

Beinar launahækkanir til verkafólks, lög um starfsmannaleigur, hækkun atvinnuleysisbóta, þátttaka í örorkubyrði lífeyrissjóða og framlög til starfsmenntunar eru þau mál sem líklegast er að viðræður forsendunefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins geti strandað á í dag. Framkvæmdastjórn Starfsgreinsambands Íslands fundar á morgun og fer yfir stöðu málanna á hvorn veginn sem viðræðurnar fara í dag. Formannafundur aðildarfélaga ASÍ verður svo á fimmtudaginn þar sem farið verður í saumana á stöðu mála.

"Það er ljóst að verðbólgan er langt fyrir ofan það sem við reiknuðum með. Ekki síður mikilvægt er að aðrir hópar launafólks hafa verið að fá mun meiri launahækkanir en okkar fólk. Ég trúi ekki öðru en að menn ætli sér einhverja leiðréttingu," segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur.

Í forsendunefndinni sem nú fundar sitja þeir Halldór Grönvold og Ólafur Darri Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Ari Edwald og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Ef forsendu­nefndin nær samkomulagi fyrir miðnætti í kvöld er það bindandi samkomulag og þá mun ekki koma til uppsagna á samningum. Ef samkomulag næst ekki geta aðildarfélög Alþýðusambandsins sagt samningum lausum hvert fyrir sig.

"Maður verður að vera vongóður um að þetta hafist hjá þeim því annars er fjandinn laus, ég held að það sé óhætt að segja það," segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×