Innlent

Ræningi þegir um félaga og ránsfeng

Lögregla á vettvangi. Mikill viðbúnaður var vegna bankaránsins í Hátúni. Lögregla var komin á vettvang örfáum mínútum eftir ránið.
Lögregla á vettvangi. Mikill viðbúnaður var vegna bankaránsins í Hátúni. Lögregla var komin á vettvang örfáum mínútum eftir ránið.

Hilmar Ragnarsson, 43 ára gamall Reykvíkingur, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hilmar og óþekktur félagi hans réðust hettuklæddir inn í útibú Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Hátúni 2 um klukkan 11:20 föstudaginn 9. janúar í fyrra. Þeir voru vopnaðir rörbútum, ógnuðu viðskiptavini bankans og starfsfólki og komust undan með 610 þúsund krónur sem aldrei hafa fundist.

"Ákærði á sér engar máls­bætur," segir í dómnum og er tekið fram að ljóst sé að ránið hafi verið fyrir fram vel skipulagt, bæði með það í huga að komast yfir mikla peninga og tryggja undankomu ræningjanna.

"Við ákvörðun refs­ing­ar er litið til þess að ákærði framdi ránið á ófyrirleitinn hátt í félagi við annan mann og voru þeir báðir hettuklæddir."

Fram kemur í dómnum að menn­ir­nir hafi látið mjög dólgs­lega þegar þeir réðust til inn­göngu þar sem þeir öskrandi slógu rörbútunum í innanstokksmuni. Hilmar braut svo glerið í gjald­kera­stúku og hótaði að drepa starfs­stúlku­na ef hún afhenti ekki peninga. Á meðan stökk félaginn upp á afgreiðsluborð fyrir framan aðra stúku og hrifsaði til sín peninga.

Ránið sjálft tók ekki nema örfáar mínútur. Það hófst klukk­an 11:19 og voru mennir­nir á bak og burt þegar lögregla kom klukkan 11:23.

Þjónustufulltrúi í bankanum hafði ýtt á neyðarhnapp og úti fyrir hringdi vegfarandi á lögreglu. Til ræningjanna sást þar sem annar flúði á hjóli en hinn hlaupandi, en fjöldi vitna varð var við ferðir þeirra. Hilmar var ekki yfirheyrður vegna málsins fyrr en um einum og hálfum mánuði eftir ránið og neitaði þá staðfastlega nokkurri aðild en kvaðst á þessum tíma hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu. Lögregla fann hins vegar lífsýni úr honum í nælonsokki sem hann notaði til að hylja andlit sitt við ránið. Sokkurinn fannst við gatnamót Laugavegar og Ásholts ásamt öðru dóti sem ræningjarnir köstuðu frá sér á flóttanum. Einnig fundust lífsýni úr Hilmari í gúmmíhanska og húfu sem fannst á svipuðum slóðum.

Auk fangelsisdómsins var Hilmari gert að greiða viðskipta­vini bankans sem þeir félagar hröktu út með ofbeldi 300 þúsund krónur í skaðabætur, bankanum rúmlega 709 þúsund krón­ur og rúmar 745 þúsund krón­ur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×