Innlent

Nýr ráðherra fær að fóta sig

Einar K. Guð­finns­son sjávarútvegsráðherra heldur ræðu á aðalfundi LÍÚ í lok október. Forveri hans í starfi sagðist ekki í vafa um að úthlutanir byggða­kvóta stæðust lög.
Einar K. Guð­finns­son sjávarútvegsráðherra heldur ræðu á aðalfundi LÍÚ í lok október. Forveri hans í starfi sagðist ekki í vafa um að úthlutanir byggða­kvóta stæðust lög.

Útvegsmenn hafa lagt til hliðar ráðagerðir um málshöfðun á hendur ríkinu vegna úthlutunar byggðakvóta. Magnús Kristinsson, fram­kvæm­da­stjóri útvegsfyrir­tækis­ins Bergs-Hugins í Vestmanna­eyjum, segir útvegsmenn ætla að bíða og sjá til hvað gerist áður en tekin verði ákvörðun um málshöfðun.

"Maður vill ekki hrófla alveg strax við nýjum ráðherra heldur láta hann fá sína eldskírn fyrst og átta sig á þessum hlutum. Kannski verða líka á þessu einhverjar breytingar."

Þegar tilkynnt var um úthlutun byggðakvóta í byrjun ágúst brugðust útvegsmenn á stöðum sem ekki hlutu úthlutun hins vegar hart við og þá sagði Magnús ljóst að látið yrði sverfa til stáls.

"Það er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka þegar eignir manns eru teknar og þeim deilt út til annarra," sagði hann, en Vestmannaeyjar fengu engan byggðakvóta meðan Súðavík, Siglufjörður og Stykkishólmur fengu mestan kvóta.

Árni Mathiesen, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sagði úthlutanirnar vera í samræmi við lög um stjórn fiskveiða og áréttaði að í þeim hefði alltaf verið ráð fyrir þeim gert. Hann sagðist ekki efast um að úthlutunin stæðist lög, en tiltók um leið að vitanlega væri öllum frjálst að bera stjórnvaldsákvarðanir undir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×