Innlent

Trillukarl með mál til Evrópudómstólsins

Ragnar Aðalsteinsson, sem er lögmaður trillukarlsins, segir eignarréttinn njóta verndar í viðauka við Mannréttindadómstól Evrópu.
Ragnar Aðalsteinsson, sem er lögmaður trillukarlsins, segir eignarréttinn njóta verndar í viðauka við Mannréttindadómstól Evrópu.

Maður sem dæmdur var í Hæstarétti fyrir brot á fiskveiðilöggjöf fyrir um hálfu ári síðan hefur vísað máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Ekki liggur fyrir hvort dómstóllinn tekur málið upp, en strangar reglur gilda um hvaða mál eru tekin þar fyrir og vegna mikils fjölda mála tekur nokkurn tíma hjá dómnum að afgreiða mál.

Ragnar Aðalsteinsson, lög­maður mannsins, staðfesti að málinu hefði nýlega verið skotið til Mannréttindadómstólsins, en segist löngu hættur að reyna að giska á hvenær mál fái afgreiðslu hjá dómnum. Meðferðartíminn getur reynt mjög á þolrif þeirra sem bíða niðurstöðu, segir hann.

Ragnar segir að í dómi Hæstaréttar frá því í apríl sem skotið hefur verið til Mannréttindadómstólsins hafi maður verið dæmdur til refsingar fyrir veiðar í netlögum eigin jarðar. Með því segir hann nýtingarrétt hafa verið tekinn af eiganda jarðarinnar og færðan til annarra óviðkomandi. Með erindi til Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið ákveðið að láta reyna á réttindi eigenda jarða til fiskveiða í sínum eigin netlögum, en eignarréttur nýtur verndar samkvæmt fyrsta viðauka við Mannréttindadómstól Evrópu.

Þá segir Ragnar standa fyrir dyrum að eigendur sjávarjarða höfði einkamál fyrir íslenskum dómstólum þar sem látið verði reyna á réttindi í netlögum í heild sinni. Það gæti orðið eftir einhverjar vikur en að svo stöddu þori ég ekki að nefna dag.

Á vettvangi Mannréttinda­dóm­stólsins er í skoðun að hætta að taka við málum sem til hans er beint af einstaklingum, að því er kom fram í nýlegu viðtali blaðsins við Davíð Þór Björgvinsson, dóm­ara við dómstólinn.

Hann segir að fyrr en síðar verði dómstóllinn að grípa til að­gerða vegna mikils fjölda mála sem til hans er beint. Davíð segir meðalbiðtíma eftir úr­skurði vera tvö til þrjú ár, en stærri prófmál geti tekið allt að tíu árum í meðförum dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×