Innlent

Aðeins konur flytja fyrirlestrana

Konur á Bifröst. Þessi fríði kvennahópur var á Bifröst í fyrravor en á morgun verða einungis konur meðal fyrirlesara á málþingi um virðisaukaskatt.
Konur á Bifröst. Þessi fríði kvennahópur var á Bifröst í fyrravor en á morgun verða einungis konur meðal fyrirlesara á málþingi um virðisaukaskatt.

"Þetta kom eiginlega alveg óvart til", segir Bárður Örn Gunnarsson, markaðsstjóri Viðskiptaháskólans á Bifröst, en þar verður haldið málþing um virðisaukaskatt á morgun.

Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að allir fyrirlesararnir eru konur. Sú umræða hefur verið í gangi að það sé svo erfitt að fá konur til að ræða um þessu hörðu mál. Við sáum hins vegar hvað við eigum frambærilegar konur á þessu sviði svo að við ákváðum að stíga skrefið til fulls; hafa einungis konur og sýna þannig fram á að þær eru engu erfiðari til umræðu um þessi mál, segir Bárður.

Mikil áhersla er lögð á jafnrétti í skólanum og í síðustu viku samþykkti háskólaráð einróma sérstaka jafnréttisáætlun skólans.

Sú áætlun felur meðal annars í sér að jafnréttis skuli gætt við inntöku nemenda svo hlutfall annars kynsins verði aldrei neðan við fjörutíu prósent.

Einnig verður konum boðið ókeypis á námskeið og veitt ráðgjöf eftir útskrift en könnun sem gerð hefur verið sýndi fram á að konur bera minna úr býtum í atvinnulífinu eftir útskrift en karlar. Við það verður ekki unað, segir Runólfur Ágústsson rektor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×