Innlent

Sjúklingar uggandi

Nýrnadeild LSH. Fjöldi sérhæfðra hjúkrunarfræðinga á skilunardeild LSH hafa sagt upp störfum vegna óánægju með breytt vaktafyrirkomulag. Þjónusta deildarinnar er lífsnauðsynleg sjúklingum sem hana sækja.
Nýrnadeild LSH. Fjöldi sérhæfðra hjúkrunarfræðinga á skilunardeild LSH hafa sagt upp störfum vegna óánægju með breytt vaktafyrirkomulag. Þjónusta deildarinnar er lífsnauðsynleg sjúklingum sem hana sækja.

Sjö sérhæfðir hjúkr­unarfræðingar hafa sagt störfum sínum lausum á nýrnadeild Land­spít­ala - háskólasjúkrahúss vegna óánæg­ju með nýtt vakta­fyrir­komu­lag. Sjúklingar í blóð­skil­un óttast mjög um hag sinn, en breytingarnar eiga að taka gildi um áramót.

"Við þurfum að breyta vinnutímanum og þær treysta sér greinilega ekki til að vinna eftir þeirri leið sem við þurfum þarna að fara í," segir Anna Stefánsdóttir, hjúkrunar­forstjóri LSH, um uppsagnirnar. Hún segir breytingarnar fyrst og fremst gerðar til að mæta þörfum starfsfólks á deildinni, en sjö af nítján starfsmönnum hennar hafa sagt upp.

"Þeir sem sagt hafa upp hætta ekki strax, en störfin eru mjög sérhæfð," segir Anna og bætir við að til að hjúkrunarfræðingur geti starfað þar sjálfstætt þurfi að koma til um það bil ársþjálfun. Hún segir að um 40 einstaklingar komi reglulega í skilun á deildina vegna sjúkdóms í nýrum. Jórunn Sörensen, er ein þeirra sem reglulega þarf að mæta í blóðskilun á skilunardeild. Hún segir sjúklinga óttast mjög um sinn hag vegna deilunnar.

"Þetta er mjög slæmt fyrir okkur," segir hún og vísar til þess hversu sérhæft starf hjúkrunarfræðinganna sé. Hún segir tímann þegar verið sé að þjálfa nýliða erfiðan fyrir sjúkl­inga sem orðið geti fyrir bæði óþægindum og kvölum. "Manneskjur sem eru búnar að vera þarna árum saman í blóðskilun eru fullar af kvíða þegar byrjar einhver nýr, því nýliðar eru svo lengi að ná þessu."

Hún áréttar að þeir sem þurfi á þjónustu deildarinnar að halda eigi ekki í önnur hús að venda, en um vika til hálfur mánuður án blóðskilunar getur lagt nýrnasjúkling í gröfina. Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á spítalanum segist vonast til að afstýra megi vandræðum á deildinni. "En ef ekki fæst á málinu lausn óttast ég að vandræði geti skapast, því þarna fer fram mjög mikilvæg starfsemi sem ekki undir neinum kringumstæðum er hægt að stöðva."

Hann segir yfirmann hjúkrunarfræðinganna einhliða hafa breyt vinnufyrirkomulaginu vegna þess að á ákveðnum tímum dags hafi mönnun verið meiri en þurfti. "Við höldum uppi þjónustu við sjúklinga, en það er alveg ljóst að gríðarlegt vinnuálag verður á þá sem eftir eru ef ekki fæst á málinu lausn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×