Innlent

Mannræningjarnir neita sakargiftum

Mannræningjar í Héraðsdómi. Tveir piltanna fimm sem sakaðir eru um að hafa rænt starfsmanni Bónuss á Seltjarnarnesi og pínt til að taka út peninga í hraðbanka bíða fyrir utan dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Mannræningjar í Héraðsdómi. Tveir piltanna fimm sem sakaðir eru um að hafa rænt starfsmanni Bónuss á Seltjarnarnesi og pínt til að taka út peninga í hraðbanka bíða fyrir utan dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Fimm piltar sem sakaðir eru um mannrán í haust sögðu allir ákæru á hendur þeim ranga. Forsprakkinn játaði þó sök að hluta. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Fimmmenningarnir eru allir ungir að árum, líkt og fórnarlamb þeirra sem er bara sautján ára. Forsprakkinn, sem situr í síbrotagæslu á Litla-Hrauni, er einungis sextán ára, sem og tveir félagar hans. Einn verður átján ára síðar í mánuðinum og sá fimmti og elsti er 26 ára.

Samkvæmt ákærunni á hendur piltunum óku þeir að vinnustað fórnarlambs síns, verslun Bónuss við Austurströnd á Seltjarnarnesi, föstudaginn 2. september. Þar fóru þrír inn og þvingaði forsprakkinn, en honum hafði sama dag verið sleppt úr gæsluvarðhaldi vegna annarra brota, piltinn út með því að beina að honum rásbyssu. Þegar út var komið var piltinum komið fyrir í skotti bílsins og ekið út að Reykjavíkurflugvelli við Skerjafjörð. Þar eru fimmmenningarnir sagðir hafa veist að piltinum, slegið hann og kastað í jörðina og forsprakkinn heimtað peninga og skotið af rásbyssunni í jörðina skammt frá fórnarlambinu. Piltinum var svo troðið í skottið aftur og ekið í Landsbankann við Hagatorg þar hann var neyddur til að taka út 33.400 krónur.

"Ég neyddi hann ekki neitt, hann bara skuldaði mér pening," sagði forsprakki hópsins þegar sakarefnin voru lesin upp fyrir hann í dómi í gær.

Þá gerði hann athugasemdir við aðra atburðarás, sagðist hvorki hafa beint að drengnum byssu inni í Bónusversluninni né hótað honum. Hann játti því hins vegar að hafa hleypt af byssunni í Skerjafirði. Næstelsti pilturinn neitaði því að hafa lagt hendur á drenginn úr Bónus en gerði ekki aðrar athugasemdir við ákæruatriði.

Hinir þrír neita allir sakargiftum. Í næstu viku verður sameinuð málinu sem rekið er á hendur piltunum önnur ákæra á hendur forsprakkanum og þeim næstelsta fyrir önnur brot, en aðalmeðferð málsins fer fram fyrir dómi undir lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×