Innlent

Ekki með vitund stjórnvalda

"Íslensk stjórnvöld hafa engar upplýsingar um flutninga Bandaríkjamanna á föngum um íslenska lofthelgi, til eða frá áfangastöðum, þar sem þeir kynnu að hafa verið beittir pyndingum," segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Staðfest er að nokkrar flugvélar, sem gætu hafa flutt fanga á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, hafa á undanförnum misserum haft viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Ragnheiður segir að utanríkisráðuneytið láti nú kanna hjá íslenskum flugmálayfirvöldum og bandarískum stjórnvöldum hvort mögulega hafi verið farið með fanga um íslenska lofthelgi.

"Við höfum fengið lista frá Danmörku yfir þau flugnúmer sem við sögum koma. Samkvæmt áætlun vélarinnar, sem lenti hér 8. mars síðastliðinn, voru aðeins tveir einstaklingar um borð." Ragnheiður segir að utanríkisráðuneytið hafi enga vitneskju um það hvort í þeirri flugvél né öðrum hafi verið fangar. "Það hefur hvergi verið staðfest og eru því eins og hverjar aðrar sögusagnir á þessu stigi," segir Ragnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×