Innlent

Nauðgaði stúlku á stigapalli

Hafnarstræti í Reykjavík. Tvítugri stúlku var í sumar nauðgað af starfsmanni veitingastaðar sem fór með henni og fleira fólki í eftirpartí.
Hafnarstræti í Reykjavík. Tvítugri stúlku var í sumar nauðgað af starfsmanni veitingastaðar sem fór með henni og fleira fólki í eftirpartí.

Maður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tví­tugri stúlku á stigapalli í húsi í Reykja­vík í sumar. Þá var manninum gert að greiða stúlkunni 700.000 krónur í skaða­bætur auk 359.145 króna í sakar­kostnað.

Stúlkan hafði föstudagskvöldið 23. júlí farið með vinkonum sín­um á skemmtistað í miðbæ Reykja­víkur. Þar hitti hún manninn sem nauðgaði henni en hann starfaði á staðnum. Stúlkurnar, maðurinn og fleiri fóru fótgangandi seint um kvöldið í hús þar sem skemmtanahald hélt áfram.

Stúlkan og maðurinn rædd­­ust eitthvað við um kvöldið. Stúlkan og vinkonur hennar bera að vísa hafi átt manninum úr samkvæminu eftir að hann lagði sig í óleyfi inni í herbergi hús­ráð­anda. Stúlkan fór hins vegar með honum fram á stigapall og ræddi við hann. Þegar hún ætlaði aftur inn í íbúð hafi hann haldið henni, þröngvað hönd sinni ofan í buxur hennar og nauðgað henni upp við vegg.

Stúlkan bar að árásin hafi hætt þegar hún náði að klípa manninn í liminn. Þá var hún farin að gráta og margbúin að segja að þetta vildi hún ekki. Maðurinn neitaði nauðguninni en kvað stúlkuna hafa látið eins og hún hafi skipt um skoðun um atlotin.

Dómnum þótti einsýnt að beita hefði þurft talsverðu afli til að rífa buxur stúlkunnar en þær rifnuðu niður úr rennilásnum og ekki lagður trúnaður á orð hans. Maðurinn var hins vegar ekki sakfelldur fyrir að hafa haft samræði við stúlkuna heldur að hafa "þröngvað henni til kynferðismaka annarra en samræðis með því að stinga fingri inn í leggöng hennar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×