Innlent

Tveir eldsvoðar á mánuði

Eldur kom upp í stóru húsi við Mýrargötu í Reykjavík rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld. Tilkynnt var um eldinn laust fyrir klukkan hálftólf og þegar slökkvilið kom á vettvang logaði glatt í innréttingum á annarri og þriðju hæð, en húsið er þriggja hæða. Reykkafarar gengu úr skugga um að húsið væri mannlaust. Slökkvistarf gekk greiðlega og lauk rétt fyrir klukkan eitt. Þetta er í annað sinn á tæpum mánuði sem eldur kemur upp í húsinu en það á að rífa í tengslum við endur- og uppbyggingu Mýrargötunnar. Fyrir liggur að útigangsmenn hafa haldið til í húsinu sem er vart meira en fokhelt. Til stóð að innrétta í því íbúðir fyrir nokkrum árum en af því varð ekki. Eldsupptök eru óljós en grunur leikur á að kveikt hafi verið í, þar sem hvorki rafmagn né vatn er tengt í húsinu. Lögregla annast rannsókn málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×