Lífið

Húsið öskraði á mig

"Það má segja að þetta hús hafi öskrað á mann. Ég kom einu sinni í það þegar Top Shop var með verslun hérna og hugsaði þá strax að hér væri sniðugt að hafa bókabúð, veitingahús og eiginlega allt nema franskar kartöflur," segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir. Arndís stendur að Iðu sem er risavaxið menningarhús í miðborginni sem var formlega opnað í gær. "Ég var framkvæmdastjóri hjá Mál og Menningu á þessum tíma og hugsaði til þess þegar húsnæðið var yfirgefið að það væri synd að vera ekki með bókabúðina þar. Á þessum tíma kom frækorn sem þróaðist og þegar ég hætti hjá Mál og Menningu fékk það útrás og í janúar má segja að við Baugur hafi náð saman." Starfsemin í húsinu verður margbreytileg. "Þar verður bóka- og gjafavöruverslun, gallerí, Handprjónasambandið, veitingastaður og kaffihús og jafnvel eitthvað fleira. Það er því bæði list og lyst á staðnum. Þetta er húsnæði sem bíður upp á lítið konsept svona nokkurs konar "mini mall"," segir Arndís. Reynt verður að halda flæði í húsnæðinu og forðast að skipta því upp í lítil hólf og ganga að sögn Arndísar. "Fólk getur setið á kaffihúsinu og séð allt. Það eru listasýningar út um allt hús og við ætlum að nýta þessa stóru glugga vel en þeir gera húsið svo bjart og skemmtilegt." Arndís segist hafa fengið ótrúlega mikil viðbrögð við framtakinu og segir hún þau öll hafa verið jákvæð. "Miðbærinn er aftur á uppleið eftir sögulega lægð og fólk er mjög ánægt með að við séum að færa líf í þetta stóra hús. Nú er bara vonandi að miðbærinn fari að taka enn betur við sér og fólk fari að gera sér ferð í bæinn."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.