Sport

Albert hættur með Grindavík

Albert Sævarsson, markvörður knattspyrnuliðs Grindavíkur, er hættur að leika með liðinu vegna launadeilna við forráðamenn félagsins. Albert segir að ekki hafi verið gerður við sig samningur, þrátt fyrir mikinn þrýsting af hans hálfu, og að félagið hafi ekki staðið við það sem um var samið. Albert var í verkfalli fyrir síðasta leik Grindvíkinga í Landsbankadeildinni, gegn FH-ingum á heimavelli, en málið leystist klukkutíma fyrir leik. Leikurinn tapaðist 4-0. Forráðamenn knattspyrnudeildar Grindavíkur vilja meina að félagið hafi staðið við sitt og gott betur. Samningur hafi legið fyrir í allt sumar og launaviðauki í byrjun júlí. Aukinheldur hafi Albert þegið greiðslur frá félaginu í allt sumar. Grindvíkingar, sem eru í miklum fallslag þegar tvær umferðir eru eftir af Landsbankadeildinni, hafa farið þess á leit við Helga Má Helgason að hann verji markið í síðustu leikjunum en Helgi er farinn til náms í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×