Erlent

Flest bendir til sigurs Júsjenkó

MYND/AP
Meira en 12 þúsund kosningaeftirlitsmenn víðs vegar að úr heiminum eru komnir til Úkraínu, til þess að fylgjast með endurteknum forsetakosningum í landinu, sem fara fram í dag. Skoðanakannanir benda til þess að stjórnarandstæðingurinn Júsjenkó muni fara með sigur af hólmi. Meira en helmingi fleiri kosningaeftirlitsmenn verða til staðar í dag en voru í fyrri kosningunum þann 21. nóvember. Það ásamt úrskurði stjórnlagadómstóls Úkraínu í gær um að heimila utankjörstaðaatkvæði ætti að minnka til muna líkurnar á að deilurnar eftir síðustu kosningar endurtaki sig. Deilurnar síðast sneurust ekki síst um utankjörstaðaatkvæði og er vonast að úrskurður stjórnlagadómstólsins í gær verði til þess að útiloka kærur frá þeim sem býður lægri hlut í kosningunum. Flest bendir til þess að Viktor Júsjenkó beri sigur úr bítum. Í síðustu könnunum hefur hann mælst með allt að 14% meira fylgi en Viktor Janúkóvitsj, sem sigraði fyrri kosningarnar, sem hæstiréttur Úkraínu ógilti síðan, þar sem sýnt þótti að brögð hefðu verið í tafli. Janúkóvitsj heldur því þó enn fram að Júsjenkó hafi notað vinsældir sínar erlendis til þess að þvinga fram endurtekningu á kosningunum, sem hafi verið lögmætar. Stuðningsmenn Júsjenkó saka hins vegar liðsmenn Janúkóvitsj ekki einungis um að hafa svindlað í kosningunum, heldur segja þeir hann líka standa á bak við eitrun sem júsjenkó varð fyrir í aðdraganda kosninganna og leiddu til þess að andlit hans afmyndaðist. Þúsundir stuðningsmanna Júsjenkós hafa safnast saman á götum Kænugarðs, höfðuborgar Úkraínu, í dag, þrátt fyrir að gríðarlegt frost sé úti. Júsjenkó segir að takist honum að sigra í kosningunum verði meginverkefni hans að reyna að eyða sundrunginni á milli austur- og vesturhluta Úkraínu. Júsjenkó hefur mikla yfirburði í vesturhluta Úkraínu og nýtur stuðnings flestra vestrænna ríkja. Í austurhluta Úkraínu er Janúkóvitsj hins vegar mun vinsælli. Það þykir því skipta mjög miklu máli hve stór sigurinn verður, þar sem afgerandi sigur annars hvors frambjóðandans myndi auðvelda mjög það verkefni að sameina landið. Kjósendur í Úkraínu eru alls 36 milljónir talsins. Kjörstöðum lokar um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma og fyrstu tölur munu væntanlega berast rétt fyrir miðnætti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×