Innlent

Óljóst um afdrif 39 Íslendinga

Enn er óljóst um afdrif 39 Íslendinga sem taldir eru vera á hamfarasvæðunum en engar vísbendingar eru um að þeir hafi slasast eða farist. Að sögn Péturs Ásgeirssonar í utanríkisráðuneytinu eru langflestir þeirra sem ekki hefur náðst samband við á Taílandi. Utanríkisþjónusta Dana þar í landi hefur boðist til að grennslast fyrir um Íslendingana líkt og um Dani væri að ræða og greiða götu þeirra ef á þarf að halda. Þá hefur utanríkisþjónustan haft samaband við ræðismenn sína á öllu svæðinu og beðið þá um að grennslast fyrir um hugsanlegar ferðir Íslendinga. Engar skipulagðar ferðir voru farnar héðan til svæðisins fyrir jól en Íslendingar gætu hafa farið þangað með erlendum ferðaskrifstofum. Víða er símasamband rofið eða lélegt þannig að erfitt getur verið um vik fyrir Íslendingana að láta vita af sér. Svo getur þeim sem allt er í lagi hjá láðst að láta vita af því. Fréttastofa Bylgjunnar náði fyrir stundu tali af Konráð Magnússyni sem var ásamt konu sinni og yfir 200 manns kominn um borð í flugvél á Maldíveyjum þegar ósköpin dundu yfir. Farþegum var skipað að yfirgefa vélina í skyndingu og halda inn í flugstöðina og síðan varð allt um flotið og hálfs metra djúpt vatn varð á flugbrautinni. Þegar vatnið sjatnaði tók það stórvirkar vinnuvélar átta klukkustundir að hreinsa eina flugbraut þannig að vélar á vellinum kæmust á brott. Konráð er nú á Sri Lanka á svæði sem ekki varð fyrir barðinu á hamförunum en í næsta nágrenni fórust nokkur þúsund manns. Eins og áður sagði varð Sri Lanka verst úti í hörmungunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×