Innlent

Neyðarúrræði Háskóla Íslands

Formaður stúdentaráðs telur að ákvörðun Háskóla Íslands um að nýta ekki undanþáguheimild í lögum og hleypa um 200 nemendum með starfsreynslu á við stúdentspróf inn í skólann sé neyðarúrræði. Framkvæmdastjóri akademískrar stjórnsýslu við Háskólann segir skólann ekki í deilu við menntamálaráðuneytið. Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir Háskólann þvingaðan til aðgerða. "Við höfum fylgst með þessu og fengið til okkar fyrirspurnir og reynt að skoða þessi mál og greiða leiðir þessa fólks. Við höfum átt samskipti við Háskólayfirvöld og það er alveg ljóst að deildarforsetar eru tilbúnir að hleypa þessu fólki inn. Aftur á móti er málið þannig að Háskóli Íslands er neyddur til að taka til mjög harðar aðgerða. Það er búið er að mála Háskólann út í horn og því er staðan svona. Háskólinn getur því miður ekki veitt þessu fólki inngöngu og nýtt sér þær undanþágur sem reglurnar kveða á um." Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri akademískrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, segir Háskólann í góðu samstarfi við menntamálaráðuneytið. "Hins vegar var tekin sérstök ákvörðun um að nýta ekki þessa heimild sem við höfum að taka inn fólk sem ekki uppfyllir formleg inntökuskilyrði." Jarþrúður hefur heyrt um fólk sem hafi dregið að borga skólagjöld við Háskólann og því ekki fengið skólavist. "Aftur á móti tel ég að þeir sem eru komnir langt í námi og hafa skilað viðunandi árangri áður fyrr hafi fengið undanþágu og ég veit að hvert tilfelli er skoðað sérstaklega." Þórður staðfestir að farið sé yfir allar umsóknir. "Það var sérstaklega tekið á þessu að það yrðu ekki neinar undanþágur frá þessum fresti. Það var sérstaklega kynnt í lok desember. Farið er eftir þeim samþykktum sem Háskólaráð hefur ákveðið." Jarþrúður telur þetta segja okkur hvað ástandið sé skelfilegt. "Við viljum sjá menntamálaráðherra og menntamálaráðuneyti greiða götu Háskóla Íslands og sjá til þess að þessir hlutir verði leiðréttir rétt eins og þeir gerðu í máli framhaldskólanna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×