Sport

Daði Dervic tekur við Haukum

1. deildar lið Hauka í knattspyrnu hefur sagt Þorsteini Halldórssyni upp störfum sem þjálfara liðsins. Izudin Daði Dervic hefur verið ráðinn sem þjálfari en hann hefur undanfarin þrjú ár þjálfað 2. flokk félagsins. Þorsteinn tók við þjálfun liðsins af Willum Þór Þórssyni eftir að Haukarnir unnu sig upp í 1. deild haustið 2001. Liðið stóð sig ágætlega undir stjórn Þorsteins næstu tvö árin en byrjun mótsins nú hefur vægast sagt valdið vonbrigðum og steininn tók úr þegar liðin var gjörsigrað 5-0 af 2. deildar liði Aftureldingar í bikarkeppninni á dögunum. Fréttablaðið hafði samband við Pál Guðmundsson, formann knattspyrnudeildar Hauka: "Þessi ákvörðun var gerð í samráði við Þorstein og var því sameiginleg niðurstaða stjórnar knattspyrnudeildar og Þorsteins. Við vorum ráðþrota varðandi gengi liðsins hingað til í sumar. Við erum búnir að tapa fjórum leikjum og árangur liðsins hefur ekki staðið undir væntingum stjórnar eða þjálfara og eitthvað varð að gera. Hvort þetta hafi verið rétti tímapunkturinn eða ekki verður bara stjórnin að standa og falla með. Izudin Daði Dervic er með ákveðna lausn og við keyptum hana og vonum að hún gangi upp. Við treystum honum hundrað prósent til að losa okkur úr þeim ógöngum sem liðið er komið í," sagði Páll Guðmundsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×