Innlent

Gölluð flugeldategund innkölluð

Landsbjörg og lögreglan hafa innkallað eina tegund flugelda vegna galla. Mikil sala hefur verið á skoteldum en lögreglan biður forráðamenn barna og unglinga að gæta vel að því að þeir séu ekki að nota flugeldana á annan hátt en ætlast er til. Tvö alvarleg slys urðu í gær þegar skoteldar voru teknir í sundur.  Þeir áköfustu byrjuðu að skjóta upp flugeldum strax á milli jóla og nýárs en í kvöld ætti hámark að nást. Nokkur örtröð var enda á flugeldsölustöðum í morgun. Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur innkallað eina tegund flugelda þar sem hún reyndist ekki eins og til stóð. Flugeldurinn kallast „Hnífur“ og springur mjög fljótlega eftir að honum er skotið á loft og því hættulega nálægt fólki. Landsbjörg hefur gert ráðstafanir í því sambandi og innkallað þá gölluðu flugelda sem sendir hafa verið í sölu víða um land. Landsbjörg leggur áherslu á að þeir sem hafi keypt þessa flugelda skili þeim á næsta sölustað og fái annað hvort endurgreitt eða inneign fyrir öðrum flugeldum.Búið er að skila talsverðu inn af þessum flugeldum en að sögn Óskars Bjartmarz, varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík, vantar þó nokkuð upp á ennþá. Þrátt fyrir að aðalskottíminn sé ekki fyrr en í kvöld hafa þegar orðið slys vegna þeirra. Tveir strákar, einn í Reykjavík og hinn í Kópavogi, slösuðust í andliti eftir að þeir höfðu tekið skotköku í sundur. Sumir koma langt að til að sækja sína flugelda því Skagamenn voru í KR-heimilinu í morgun að kaupa sína flugelda þar, en þeir hafa haft þennan háttinn á í áratug. Jónas Kristinsson hjá KR-flugeldum segir daginn í yfirleitt skipta sköpum í flugeldasölunni. Þrátt fyrir vonda spá er Jónas sannfærður um að vel verði hægt að skjóta eldum á loft í kvöld, enda hafi hann aldrei upplifað þau áramót þar sem hann hafi þurft að sitja inni vegna veðurs í kringum miðnætti. Hann segir alltaf vera logn þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×