Lífið

Flugeldar fyrir 400 milljónir?

Búist er við að landsmenn skjóti upp flugeldum fyrir allt að fjögur hundruð milljónir króna um áramótin. Reiknað er með góðri flugeldasölu þrátt fyrir slæma veðurspá. Fluttir voru inn 30 gámar af flugeldum fyrir áramótin, eða um 500 tonn, en langmest, um 400 tonn, er flutt inn af slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, sem með sölu á varningnum aflar fjár fyrir starfsemi sína. Á vegum Landsbjargar eru 120 sölustaðir um allt land, þar af eru um 40 á höfuðborgarsvæðinu. Flugeldasalan er þegar komin á fleygiferð og eru menn bjartsýnir á að meira seljist fyrir þessi áramótin en þau síðustu. Talið er að landsmenn eyði allt að 400 milljónum króna í flugelda um áramótin. Valgeir Elíasson, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segist búast við góðri sölu, enda haldist sala flugelda yfirleitt í hendur við smásöluna, sem hafi verið mjög góð nú fyrir jólin. Hann segist ekki smeykur um að slæm veðurspá dragi úr sölu, enda sé alls óvíst að veðrið verði slæmt og spáin hafi verið að batna undanfarið. Valgeir segist hafa fulla trú á því að landsmenn verði duglegir við að nota sérstök flugeldagleraugu um áramótin til að forðast slys, en Landsbjörg flutti inn um 80 þúsund slík gleraugu í ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.