Innlent

Rauði krossinn með fund í kvöld

Rauði kross Íslands verður með fund klukkan 20.30 í kvöld fyrir þá sem hafa áhyggjur af erlendum ríkisborgurum á flóðasvæðunum í Asíu. Á fundinum verður sagt frá náttúruhamförunum í Asíu og fólki sem ekki hefur tekist að hafa upp á ástvinum sínum verður gefinn kostur á að skrá nöfn þeirra hjá leitarþjónustu Rauða krossins. Túlkað verður á taílensku og ensku. Fundurinn fer fram í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins í KB-banka húsinu við Hlemm að Laugavegi 120. Hér á landi búa um 750 manns upprunir frá Taílandi og samtals um 500 sem eru upprunir frá Indlandi, Indónesíu eða Sri Lanka og gætu því viljað hafa samband við ættingja eða vini á flóðasvæðum. Einnig er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er opinn allan sólarhringinn. Utanríkisráðuneytið verður áfram sá aðili sem grennslast fyrir um íslenska ríkisborgara sem talið er að hafi verið á flóðasvæðunum. Þegar hafa rúmlega 2.000 manns hringt í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 og þannig lagt fram eitt þúsund krónur hver til hjálparstarfsins. Þá hefur utanríkisráðuneytið tilkynnt um fimm milljóna króna framlag til Rauða krossins vegna aðstoðar við fórnarlömb flóðanna. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins eru að sinna fórnarlömbum flóðanna í þeim löndum sem urðu illa úti, þar á meðal Indlandi, Srí Lanka, Indónesíu og Taílandi. Þá er verið að flytja hjálpargögn á hamfarasvæðin víða að úr heiminum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×