Innlent

Nægur snjór í Bláfjöllum

Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður opið í dag. Þar er nægur snjór og undirlag gott þannig að það lítur vel út með skíðaiðkun íbúa höfuðborgarsvæðisins í vetur. Skíða- og brettamenn hafa þegar getað stundað íþrótt sína í nokkra daga það sem af er vetri. Ástandið á skíðasvæðinu í Bláfjöllum hefur batnað enn meira með snjókomu og góðu undirlagi, að sögn Grétars Halls Þórissonar forstöðumanns skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Hann segir útlitið nánast verða glæsilegra og glæsilegra með hverri mínútunni sem líði og nægur snjór á flestum stöðum í brekkunum. Fjórar diskalyftur og stólayftan í Suðurgili verða opin á næstunni ef aðstæður leyfa.  Að sögn Grétars er undirlag orðið þannig að það þolir rigningu en þótt rignt hafi í gær á láglendi snjóaði í Bláfjöllum. En þótt það takist að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum er ekki þar með sagt að hægt sé að opna í Skálafelli. Þar er þó ástandið að verða nokkuð gott. „Ef fer sem horfir verður hægt að opna þar á nýju ári,“ segir Grétar. Að sögn Grétars hafa bæði skíða- og brettamenn sýnt sig í Bláfjöllum það sem af er vetri og hafa skíðamenn verið þar í nokkrum meirihluta. Grétar er bjartsýnn á að veturinn verði góður fyrir skíða- og brettafólk á suðvesturhorni landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×