Erlent

Júsjenko lýsir yfir sigri

Stjórnarandstæðingurinn Viktor Júsjenko lýsti í nótt yfir sigri í forsetakosningunum í Úkraínu. Júsenkó sagði að með sigri sínum væri hafið nýtt skeið í stjórnmálasögu landsins. Búið er að telja um níutíu prósent atkvæða og segja embættismenn að Júsenkó hafi óvinnandi forskot á andstæðing sinn, Viktor Janúkovítsj, en Júsjenko var með rúmlega þriggja milljóna atkvæða forskot þegar aðeins voru ótalin tæplega 2,9 milljónir atkvæða. Þúsundir stuðningsmanna Júsjenkos komu saman á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði í gær. Þetta sama torg var miðpunktur mótmælanna sem urðu eftir forsetakosningarnar 21. nóvember þegar Janúkovítsj forsætisráðherra sigraði. Júsjenko sakaði hann og stjórnvöld hins vegar um kosningasvindl og ógilti Hæstiréttur Úkraínu kosningarnar og fyrirskipaði að þær skyldu endurteknar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×