Innlent

Bandaríkjamenn sækja á Evrópumið

Bandarískir útvegsmenn sækja nú mjög inn í Evrópusambandið með bandarískar sjávarafurðir í beinni samkeppni við íslenskar sjávarafurðir, vegna þess hve Evran er sterk gagnvart dollarnum. Þeir juku útflutning til sambandsins um fjórðung fyrstu níu mánuði ársins og er ekkert lát á sókninni síðan. Helstu afurðirnar eru Alaska ufsi og lýsingur, sem teljast til hvítfisks, líkt og þorskur og ýsa. Fyrstu níu mánuði ársins fluttu Bandaríkjamenn fisk inn i Evrópusambandið fyrir sem svarar rúmum 43 milljörðum íslenskra króna. Íslenskir fiskútflytjendur hafa á þessu ári dregið verulega úr fiskútflutningi til Bandaríkjanna vegna þess hve dollarinn stendur illa gagnvart krónunni, en að sama skapi aukið hann til Evrópusambandsins vegna góðrar stöðu Evrunnar. Fréttastofunni er ekki kunnugt um hvort bandaríski fiskurinn er í einhverjum tilvikum farinn að skáka íslenskum fiski á þessum markaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×