Sport

Forsýning í Bláfjöllum

"Þetta var eins konar forsýning. Við auglýstum ekki en þarna mættu um 200-300 manns," segir Grétar Hallur Þórisson, forstöðumaður skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, en skíðasvæðið í Bláfjöllum var opnað síðastliðinn laugardag. "Það var kominn snjór í brekkurnar, aðstæður voru merkilega góðar og þrjár lyftur voru opnar," segir Grétar Hallur. Skíðasvæðið var hins vegar lokað í gær vegna veðurs. Grétar Hallur segir skíðasvæðið í Bláfjöllum verða opnað næsta góðviðrisdag og segist hæfilega bjartsýnn á að morgundagurinn verði sá dagur. Hann segir reynsluna reyndar vera þá að aðsókn á skíðasvæðið sé ekki gríðarleg síðustu tvær vikurnar fyrir jól. "Við reynum hvað við getum að hafa opið en síðan verður allt á fullum krafti milli jóla og nýárs." Í Bláfjöllum er nú verið að vinna við nýja stólalyftu, sem er sú stærsta og fullkomnasta á landinu. Stefnt er að því að opna hana um miðjan janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×