Innlent

Samþykkt með semingi

Segja má að kennarar hafi samþykkt nýjan kjarasamning við launanefnd sveitarfélaga með semingi í allsherjaratkvæðagreiðslu. 92% kennara tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, þar af skiluðu 12% auðu. Rúmlega 50% kennara samþykktu samninginn, en rúmlega 36% höfnuðu honum. Eiríkur Jónsson, formaður kennarasambandsins, segir að áður en farið var að telja fyrir alvöru hafi verið valin fjörutíu atkvæði af handahófi til að spá fyrir um úrslitin. Samkvæmt þeim niðurstöðum hafi samningurinn verið felldur. Það sé því óhætt að segja að það hafi getað brugðið til beggja vona. Eiríkur segir að fólk hafi verið að velja á milli tveggja slæmra kosta, en meirihlutinn hafi talið að það væri betra að samþykkja samninginn en að málið færi fyrir gerðardóm. Hann segist ekki hafa getað spáð fyrir um niðurstöðuna fyrirfram. Eiríkur segir mjög mikilvægt að unnið verði rétt úr málum til þess að friður muni ríkja innan kennarastéttarinnar. Hann nefnir til sögunnar endurskoðunarákvæði í samningnum , sem og samning um breytingu á vinnutíma og mikilvægt sé að menn finni að brteyting hafi orðið þar. Verði ekki svo, sé allt eins líklegt að mikil óánægja muni gera vart við sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×