Sport

Fyrsti sigur Kjus í níu ár

Norðmaðurinn Lasse Kjus sigraði í stórsvigi heimsbikarkeppninnar á skíðum í Beaver Creek í Colorado í gærkvöldi. Þetta var fyrsti sigur Kjus í stórsvigi heimsbikarkeppninnar í níu ár. Síðast sigraði hann í Kranska Gora í desember 1995. Þetta var jafnframt sautjándi sigur Norðmannsins í heimsbikarnum. Austurríkismennirnir Herman Maier og Benjamin Raich urðu í öðru og þriðja sæti. Bandaríkjamaðurinn Bode Miller féll í fyrri ferðinni en hann hefur enn forystu í keppni um alpagreinabikarinn, er með 480 stig. Herman Maier er núna í öðru sæti, 206 stigum á eftir Miller og í þriðja sætinu er annar Austurríkismaður, Michael Walchover, 256 stigum á eftir þeim bandaríska. Í kvöld verður keppt í svigi karla í Beaver Creek. Hilde Gerg Þýskalandi sigraði í bruni heimsbikarkeppninnar í Lake Louise í Albertafylki í Kanada í gærkvöldi. Renate Götschl Austurríki varð önnur og Carole Montille Frakklandi þriðja. Hilde Gerg hefur nítján sinnum sigrað í heimsbikarnum en hún er núna í fjórða sæti í keppni um alpagreinabikarinn. Tanja Poutianen Finnlandi er með 340 stig, Anja Person Svíþjóð 289, Janica Kostelic Króatíu þriðja með 238 og Gerg í fjórða sæti með 160 stig. Í kvöld keppa konurnar í risasvigi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×