Lífið

Kveikja í gítarnum á sviðinu

Fókus, sem fylgir DV í dag, fjallar ítarlega um allt sem er að gerast í næturlífi landans. Þar á meðal um tónleika Nine Elevens á Grand Rokk í kvöld.

Hversu oft kemst maður í tæri við rokkhljómsveit með svo mikið af effektum að hún þarf að ráða einn fremsta brellumeistara íslenska kvikmyndabransans til að halda utan um allt havaríið?

Svarið skiptir ekki máli heldur kvöldið í kvöld. Þá spila vestfirsku geðsjúklingarnir í Nine Elevens á Grand Rokk. Þar verður sjóv.



"Þegar ég tek gítarsóló skrúfa ég frá gasi og það kviknar í hausnum á gítarnum. Við erum líka með svona flash-sprengur. Þær eru eins og eldfimur bómull - funky shit. Kveikjum í þeim með sígarettum og þá kemur PÚFFFF!" segir Valdimar Jóhannsson, Valdi söngvari. Nine Elevens mæta einnig með reykvél, stróp og vindvél, kveikja á henni í sólóum "til að auka Bon Jovi-effektinn". Á bakvið er þurrísvél sem sér um þurrísfoss yfir trommusettið.

"Það verður að vera með svona rugl. Taka þetta alla leið. Það er svo gaman," segir Valdi. Á tónleikum sveitarinnar á Airwaves á dögunum fengu áhorfendur nasaþefinn af effektaflippinu. Þá klikkuðu nokkur atriði en önnur slógu í gegn. Valdi lenti í vandræðum með að halda fólki frá sér þegar hann kveikti í gítarnum. "Það voru allir að reyna að ná í mig. Ég varð að reyna að forða mér. Með logandi gítar, maður. Vil ekki brenna einhverja hausa."

Á bakvið sveitina á tónleikunum í kvöld verður síðan brellumeistarinn Haukur Karlsson. Hann verkar einnig þrýstiloftskútinn, festir m.a. konfettisprengjur á hann. "Á Airwaves tæmdi hann líka úr kútnum á áhorfendur. Þá kemur bara ískalt loft fram í sal. Það var frábært. Við ætlum að reyna að gera það aftur."

Tónleikar Nine Elevens hefjast upp úr miðnætti en áður spilar hljómsveitin Ég. Inn kostar 500 kall en það er nú bara til að slá upp í allan sprengjukostnaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.