Innlent

Flestir fá eitthvað

Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, telur að fara þurfi vel yfir ríkisútgjöldin með sparnað og hagræðingu í huga þegar skattalækkun ríkisstjórnarinnar tekur gildi. Ekki þurfi endilega að skera niður í útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála. „Þetta geta verið liðir eins og atvinnumálin, til dæmis landbúnaðarmál og óbeinir styrkir til atvinnuveganna. Mér dettur í hug sjómannaafsláttur, þó að ríkisstjórnin hafi að vísu gefið loforð um að hann verði áfram. Og svo kemur til greina að spara í yfirstjórn ríkisins, til dæmis í rekstri ráðuneyta og í utanríkisþjónustunni. Einnig er hægt að fresta framkvæmdum, til dæmis vegaframkvæmdum og fjárfestingum hins opinbera,“ segir hann. Hvað varðar þá gagnrýni að skattalækkunin gagnist þeim tekjuhæstu í þjóðfélaginu mest segir Tryggvi Þór að sér sýnist flestir fá eitthvað. „Breytingarnar gagnast helst þeim sem borga skatta, ekki þeim sem ekki borga skatta og fá ekki barnabætur. Þeir sem borga hæstu skattana munu eðlilega hagnast mest að krónutölu,“ segir hann. Tryggvi Þór hefur ekki miklar áhyggjur af því hvort almenningi sé treystandi til að hafa meira milli handanna. „Þetta er mismunandi. Hluti fjárins fer í neyslu og hluti fer í aukinn sparnað. Sumir nota alla peningana í neyslu, aðrir fá tækifæri til að greiða niður skuldir og enn aðrir nota tækifærið til að setja peninga í sparnað. Ég held að það sé heilbrigðast og best að treysta fólki til að vita sjálft hvað er því fyrir bestu.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×