Sport

Atlaga hafin að titlinum

"Með samningi við þessa tvo kappa er óhætt að segja að atlaga KR að titlinum sé hafin fyrir alvöru," sagði Jónas Kristinsson, formaður stjórnar KR-sport, en í gær var tilkynnt að þeir Bjarnólfur Lárusson og Grétar Ólafur Hjartarson hefðu skrifað undir samning við Vesturbæjarliðið. Bjarnólfur til þriggja ára en Grétar til tveggja. Um gríðarmikinn feng er að ræða enda báðir þaulreyndir og voru mikilvægir hlekkir í sínum liðum á liðinni leiktíð, Grétar hjá Grindavík og Bjarnólfur hjá ÍBV. Magnús Gylfason, þjálfari KR, var afskaplega ánægður enda voru nýju leikmennirnir tveir báðir á óskalista hans þegar hann tók við liði KR. "Ég hafði áhuga á þeim báðum og er mjög ánægður með að það gekk alveg eftir. Báðir styrkja hópinn til mikilla muna og skapa enn meiri breidd sem þörf er á ætli lið sér langt í deildinni á næsta ári." Grétar Ólafur sem skoraði ellefu mörk fyrir Grindvíkinga í sumar segir að með samningnum við KR hafi ákveðinn draumur ræst. "Ég hélt með KR á mínum yngri árum þannig að ég er mjög sáttur við að vera kominn hingað." Bjarnólfur tók í sama streng og Grétar og eru báðir leikmenn fullvissir um að liðinu eigi eftir að ganga betur á næstu leiktíð en þeirri síðustu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×