Sport

Halda uppi heiðri höfuðborgarinnar

Fjölnismenn hafa byrjað Intersportdeildina frábærlega í vetur og unnið fjóra af fimm fyrstu leikjunum. Það er óhætt að segja að nýjasta Reykjavíkurfélagið í úrvalsdeildinni hafi haldið uppi heiðri höfuðborgarinnar í fyrstu fimm leikjum tímabilsins. Fjölnismenn hafa unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum í hópi þeirra bestu líkt og hinir nýliðarnir úr Skallagrími en nýliðar hafa aldrei byrjað betur. Hin Reykjavíkurfélögin, KR og ÍR, hafa á móti tapað 7 af 10 leikjum og Fjölnir hefur því unnið leik meira en nágrannar þeirra úr höfuðborginni til samans. Eina tap Fjölnis er reyndar á móti Reykjavíkurliðinu hinum megin við Átrúnsbrekkuna en 11 stiga sigur á KR-ingum á þeirra eigin heimavelli bætir upp fyrir það enda hafa Vesturbæingar ekki tapað heimaleik fyrir Reykjavíkurliði í fimm ár eða síðan Valsmenn unnu þá 73-80 í Hagaskóla 11. mars 1999. Fjölnisliðið er undir stjórn Benedikts Guðmundssonar sem tók við liðinu fyrir ári síðan og hefur frá þeim tíma unnið markvisst að því að undirbúa unga og stórefnilega stráka í liðinu fyrir átökin meðal þeirra bestu. Benedikt valdi vel þegar hann fékk þá Darrel Flake og Jeb Ivey til liðsins og eins hefur Nemanja Sovic spilað mjög vel. Allir eru þeir félagar að skora yfir 19 stig að meðaltali. Ungir leikmenn liðsins hafa líka sýnt góð tilþrif þá sérstaklega hinn 17 ára gamli Brynjar Þór Kristófersson sem hefur þegar aflað sér orðsporðs sem góður varnarmaður. Nú er að sjá hvort Grafarvogspiltar nái að halda út og sýna enn frekar að þeir séu tilbúnir í deild þeirra bestu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×