Skoðun

Fyrirtæki borguðu ísjakann í París

Menningarkynning í París - Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur



Töluvert hefur borið á fréttum um kynninguna á íslenskum menntum og menningu í Frakklandi í íslenskum fjölmiðlum (Islande - de glace et de feu), einkum sjónvarpi, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Reyndar hvergi nærri eins mikið og í Frakklandi, eðli málsins samkvæmt. Ýmiss konar samanburður sést og fullyrðingar margar. Þess vegna er rétt að fram komi nokkrar staðreyndir í málinu.

Framlag íslenska ríkisins er vissulega myndarlegt og vafalaust má telja að þar á bæ geti einhver lagt fram lokatölu sem við á. Þessu til viðbótar koma

mjög rausnarleg framlög fjórtán styrktaraðila (fyrirtækja) og ígildi framlaga tveggja til viðbótar í formi ókeypis flutninga. Líklega eru þær upphæðir samtals svipaðar og framlög ríkisins og íþyngja fjárútlátin ekki almenningi í landinu. Þessu til viðbótar verður að minna á framlag Frakka en það sýnist mér vera þrefalt á við það sem við íslenskir skattgreiðendur leggjum fram. Samkvæmt áætlunum Frakka munu a.m.k. 100.000 gestir sækja viðburðina og margföld sú tala fræðast um land og þjóð í gegnum fjölmiðla meðan á kynningunni stendur.

Lítið hefur verið fjallað um þá sem unnu s.k. vísindasýningu. Þar kemur við sögu verkfræði- og ráðgjafastofan Línuhönnun sem sá um alla verkefnisstjórnun, hönnun (með Árna Páli Jóhannssyni og Írisi Ríkharðsdóttur), alla tæknivinnu (með Exton/Kristjáni Magnússyni), texta- og myndgerð

(undirritaður) og hljóðsetningu (með Hilmari Erni). Fyrirtækið setti einnig sýninguna upp ásamt kynningu á styrktaraðilum í hliðarsal. Menntamálaráðuneytið gekkst fyrir sérútgáfu Iceland Review á frönsku í tengslum við kynninguna og á vísindasýningunni er tugþúsundum bæklinga um

efni hennar, og með tenglum til frekari fræðslu, dreift ókeypis til sýningargesta. Þá mun tímarit Palais de la Découverte fjalla um Ísland.

Ísjakinn frægi kostaði íslenska skattgreiðendur ekki krónu í reynd. Eftir að hugmyndin fæddist síðla vors var verktakafyrirtækið Ístak fengið til samstarfs ásamt Eimskip. Ístak tók að sér að ná í jakann með fulltingi undirritaðs og þeirra sem reka ferðamannaútgerðina við Jökulsárlón. Þeir aðilar og Ístak gáfu alla vinnu eystra og Ístak kostaði svo flutninginn til Reykjavíkur. Þegar þangað kom tók Eimskip við klakanum, setti í frystigám og flutti hann ókeypis til Rotterdam og áfram til Parísar. Parísarborg tók að sér að hífa klumpinn af flutningabíl og koma honum fyrir á stéttinni fyrir framan sýningarstaðinn þar sem vísindasýningin stendur yfir og opnunarhátíðin fór fram.

Sem sagt: Það fór ekkert jafngildi einhverra framlaga íslenska ríkisins til fræðslu- eða heilbrigðismála í að útvega góðan áhugavaka handa frönskum

fjölmiðlum og almenningi. Tvö íslensk fyrirtæki borguðu brúsann fyrst og fremst af því þeim þótti hugmyndin áhugaverð og framkvæmdin skemmtileg.




Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×