Innlent

Ókeypis að taka strætó í dag

Frítt verður að ferðast með Strætó í dag í tilefni af bíllausa deginum. Bíllausi dagurinn er hápunktur Evrópskrar samgönguviku 2004 og er haldinn til að hvetja fólk til að nota aðrar lausnir í samgöngum en einkabílinn og draga þannig úr mengun. Ýmsar uppákomur eru fyrirhugaðar í tilefni dagsins, meðal annars gleður dixielandbandið Sparibuxurnar hans afa gesti skiptistöðvar Strætó í Mjóddinni frá klukkan fjögur síðdegis, þar til sveitin tekur leið 111 niður á Lækjartorg þar sem spilamennskunni verður framhaldið. Þá mun Bogomil Font ferðast með Strætó og verður í Firðinum, skiptistöð Strætó í Hafnarfirði, klukkan fjögur ásamt félögum sínum. Þar taka þeir nokkur lög og fara síðan með leið 140 á Hlemm þar sem áfram verður leikið og sungið fyrir vegfarendur. Í tilkynningu borgaryfirvalda kemur fram að í tilefni af bíllausa deginum verði Hverfisgata milli Rauðárárstígs og Snorrabrautar lokuð fyrir almennri umferð allan daginn og Hverfisgata milli Snorrabrautar og Lækjargötu lokuð fyrir almennri umferð milli klukkan 7 og 9 árdegis og frá 3 til 6 síðdegis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×