Sport

Rooney til Rauðu djöflanna

Manchester United hefur komist að samkomulagi við Everton um kaup á enska landsliðsmanninum Wayne Rooney. Stjórn United tilkynnti um kaupin í gær hjá breska verðbréfamarkaðinum. Talið er að kaupverðið nemi um 26 milljónum punda, sem samsvarar rúmum þremur milljörðum íslenskra króna. Hinn átján ára gamli framherji mætti á Carrington, æfingasvæði United, í gær eftir að Everton hafði gefið grænt ljós á að hann færi í læknisskoðun hjá liðinu en Rooney hefur verið meiddur síðan á Evrópumótinu í Portúgal. Hart hefur verið barist um Rooney en bæði Manchester United og Newcastle voru á höttunum eftir honum. Newcastle varð fyrst liða til að bjóða í hann, um 20 milljónir punda, en tilboðið var of lágt að mati Everton. United bauð sömu upphæð og leikmann með í kaupbæti en það dugði ekki til. Eftir að Newcastle hafði boðið 23,5 milljónir punda í Rooney hækkaði stjórn United boð sitt í 25 milljónir. Bill Kenwright, stjórnarformaður Everton, og David Gill, framkvæmdastjóri United, ræddu um kaupin á mánudag á sama tíma og liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni og nú hefur loks verið gengið frá samningnum. Alltaf blár Rooney er alinn upp hjá Everton en hann hafði lýst því yfir að hann vildi söðla um. „Nú finnst mér rétti tíminn til að færa mig um set,“ sagði Rooney. Hann var þó ekki sáttur við fyrstu viðbrögð stjórnar Everton sem vildi ekki láta hann af hendi. Rooney þykir einn allra efnilegasti knattspyrnumaður heims og hefur vakið mikla aðdáun bæði með Everton og landsliðinu. Hann er sem fyrr segir uppalinn hjá Everton og skrifaði undir sinn fyrsta samning við liðið löngu áður en hann átti möguleika á að komast í aðalliðið. Stjórnarmenn Everton höfðu hins vegar mikla trú á honum og vildu tryggja að hann væri um kyrrt hjá liðinu. Hann stýrði, nánast upp á sitt einsdæmi, liðinu til sigurs í bikarkeppni ungmenna árið 2002. Á þeim tíma klæddist hann bol undir búningnum sem áletrað var á: „Eitt sinn blár – alltaf blár.“ Sló í gegn á EM Rooney lék fyrsta meistaraflokksleikinn gegn Tottenham í byrjun leiktíðar 2002-2003. Þá var hann sextán ára. Það liðu ekki nema nokkrir mánuðir þar til hann lék fyrsta landsleikinn fyrir Englands hönd. Þar með varð hann yngstur leikmanna til að leika með landsliðinu og yngstur til að skora mark. Framherjinn knái var valinn í enska landsliðið fyrir Evrópumótið í Portúgal og efuðust margir um val Sven-Göran Eriksson. Rooney þótti heldur þéttur á velli á þeim tíma og hafði átt misgóðu gengi að fagna á tímabilinu. Hann sló hins vegar svo eftirminnilega í gegn þar og blés á allar efasemdaraddir. Rooney gerði einum besta varnarmanni heims, Frakkanum Lilian Thuram, lífið leitt í riðlakeppninni. Hann náði að vísu ekki að skora í leiknum gegn Frökkum en bætti um betur og skoraði í leikjunum gegn Sviss og Króatíu. Rooney fótbrotnaði í lokaleik Englands á Evrópumótinu en hann hafði sýnt það og sannað hversu megnugur hann er. Grynnkar á skuldum Everton Stjórn Manchester United ætlaði að bíða þar til næsta sumar eftir að bjóða í Rooney og vonaðist til að fá hann þá á lægra verði. Þegar Newcastle bauð hins vegar í kappann gat stjórn United ekki setið á sér. Alex Ferguson vill klófesta Rooney og var augljóslega tilbúinn til að punga út dágóðri summu fyrir hann. Stjórn United var að renna út á tíma en leikmannamarkaðurinn lokaði klukkan tólf á miðnætti. Liðið þarf að skrá hann til Knattspyrnusambands Evrópu svo hann verði löglegur í Meistaradeildinni í haust. Everton ætti að geta lagað skuldastöðu sína en talið er að skuldir félagsins nemi um 30 milljónum punda. n



Fleiri fréttir

Sjá meira


×