Innlent

Íslendingar í góðum málum

Bæði karlar og konur eiga og vilja taka virkan þátt í heimilislífi og atvinnulífi, en ekki bara öðru hvoru, segir Cherie Blair. Hún segir Íslendinga almennt vel á vegi stadda í jafnréttisbaráttu kynjanna og samtök íslenskra kvenlögfræðinga geti með samvinnu við Evrópusamtök kvenlögfræðinga gert fólk um alla Evrópu upplýstara í jafnréttisbaráttunni. Það var margt um manninn í stóra sal Háskólabíós í dag þar sem haldið var málþing um um kvennarétt og kynjafræðilegt sjónarhorn á lögfræði. Yfirskrift málþingsins var Konur - valdið - lögin. Það kom því kannski ekki á óvart að utan Páls Skúlasonar rektors voru framsögumenn þingsins allt konur og stærstur hluti áhorfenda var einnig kvenkyns. Einn fyrirlesara var eiginkona Tony  Blair, Cherie, sem er lögfræðingur að mennt. Hún sagði Ísland vel á veg komið í jafnréttisbaráttu kynjanna og sagði landið hafa komið sér á heimskortið í jafnréttisbaráttu þegar frú Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti. Þá sagði Blair hérlend lög um fæðingarorlof til fyrirmyndar og eitthvað sem Bretar gætu aðeins látið sig dreyma um. Aðspurð eftir erindi sitt hvort konur túlki lögin öðruvísi sagði Blair að hún teldi ekki að konur sem lögfræðingar túlki lögin öðruvísi en karlmenn. Hún sagðist hins vegar líta svo á að öll túlkun á lögum byggðist á reynslu og á því léki enginn vafi að reynsla kvenna væri frábrugðin reynslu karla. Þetta þyrfti lögspekin að endurspegla. Blair sagði að það sem þurfi að gera er að tryggja að karlar tali um þessi mál og hún kvaðst ánægð með að margir ungir karlmenn vildu ræða þetta.  Aðspurð um hvaða hlutverk Norðurlöndin geti gegnt í tengslum við opin landamæri og alþjóðasamtök í sambandi við að ná kynjajafnrétti, sem Blair kom inn á í erindi sínu, sagðist hún vona, sérstaklega nú þegar stofnað hafi verið félag kvenlögfræðinga á Íslandi, að Íslendingar geti með samvinnu við Evrópusamtök kvenlögfræðinga gert fólk um alla Evrópu upplýstara í jafnréttisbaráttunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×