Erlent

Jesús var fyrsti demókratinn

"Hafi einhvern tíma verið til vinstrimaður sem hugsaði með hjartanu var það Jesús Kristur. Ég held að trésmiðurinn frá Galíleu hafi verið fyrsti demókratinn," sagði James C. Moore á ráðstefnu miðju- og vinstrisinnaðra kristinna manna þar sem þeir ræddu stjórnmál og trúmál. Moore, sem hefur skrifað bók um forsetaferil George W. Bush, sló á létta strengi í ræðu sinni en ljóst var að mörgum ræðumönnum var mikið niðri fyrir. Margir þeirra lýstu áhyggjum af því að hægrimenn virtust næstum allsráðandi í trúarlegri umræðu í Bandaríkjunum nú þegar hálfur þriðji mánuður er til forsetakosninga. "Það kann að koma mörgum á óvart að til er mjög trúað fólk sem sækir kirkju reglulega sem ætlar ekki að kjósa Bush," sagði séra Tom Heger, prestur í Texas. John D. Moyers, fræðimaður hjá Center for American Progress, lýsti sig andvígan siðaboðskap manna á borð við prestana áhrifamiklu Jerry Falwell og Pat Robertson, sem hann sagði vilja "telja okkur trú um að siðferði snúist aðeins um afstöðu okkar til fóstureyðingar og hvernig við komum fram við samkynhneigða. Ég held að það sé einfaldlega rangt". Margir á ráðstefnunni gagnrýndu að kristnir einstaklingar á hægri væng stjórnmálanna einblíndu á fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra meðan hungur og jafnvel stríðið í Írak féllu í skuggann. Samkvæmt skoðanakönnun og kosningarannsóknum sem hafa verið gerðar eru þeir sem fara í kirkju í hverri viku mun líklegri til að kjósa repúblikana en demókrata. Þeir sem fara sjaldnar í kirkju eða aðhyllast engin trúarbrögð eru mun líklegri til að kjósa demókrata. Þetta endurspeglast nokkuð í forsetaefnum flokkanna. Bush hefur gert mikið úr trú sinni og því að hann hafi frelsast. Demókratinn John Kerry talar mun síður um trú sína. Guðfræðiprófessorinn Michael Jinkins sagði Jesú geta komið öllum á óvart með því hvernig hann myndi kjósa. Þannig hefði Jesús ekki verið jafn bundinn af trúarbókstafnum og gagnrýnendur hans voru á sínum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×