Innlent

Milljarða verðmæti í húfi

Íslensk stjórnvöld undirbúa nú málaferli á hendur norskum stjórnvöldum vegna yfirstandandi deilu þjóðanna um aðgang og fiskveiðirétt innan lögsögu Svalbarða. Núverandi deila snýst þó fyrst og fremst um aðgang íslenskra skipa að svæðinu og telja Íslendingar að Norðmenn brjóti þann stofnsamning sem gerður var um Svalbarða árið 1920 og Íslendingar gerðust fullgildir aðilar að 1994. @.mfyr:Samningurinn Stofnsamningurinn er einstakur á heimsvísu að því leyti að hann kveður á um jafnan rétt og aðgang allra aðildarþjóða til veiða á og innan landsvæðisins. Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða en þær verða að koma jafnt niður á borgurum allra aðildarríkjanna. Þeir tóku hins vegar þann pól í hæðina árið 1977 að stofna 200 sjómílna fiskveiðilögsögu kringum Svalbarða en svæðið samanstendur af tæplega 160 eyjum. Síðan þá hafa norsk yfirvöld túlkað það svæði sem norska efnahagslögsögu þvert á stofnsamninginn og vilja meina að sá samningur gildi ekki frá fjögurra sjómílna landhelgi að 200 sjómílna mörkunum. Aðildarríkin í upphafi voru níu talsins en í dag eiga yfir 40 ríki aðild að Svalbarðasamningnum. Mörg þeirra eiga lítilla hagsmuna að gæta á svæðinu en ekkert þeirra ríkja sem stundað hefur veiðar svo norðarlega hefur fallist á yfirráð Norðmanna að 200 sjómílunum. Annað sem skiptir Íslendinga máli eins og fram hefur komið í máli sjávarútvegsráðherra er varðandi hugsanleg nýting annarra auðlinda í framtíðinni. Kolavinnsla hefur löngum farið fram á Svalbarða og ekki er talið ólíklegt að málmar eða jafnvel olía finnist þar í jörðu. Telja margir að verði ekki gerðar athugasemdir við framferði Norðmanna á vettvangi á borð við alþjóðadómstóla sem fyrst verður litið svo á í framtíðinni að skapast hafi hefð fyrir yfirráðum Norðmanna og alþjóðleg lög taki mið af því. @.mfyr: Veiðireynsla eða ekki veiðireynsla Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem á í vandræðum vegna framkomu Norðmanna. Rússar hafa einnig lent í sömu aðstæðum en við fiskiveiðiúthlutun undanfarin ár virðast Íslendingar bera hvað skarðastan hlut frá sameiginlegu borði. Með því að senda deiluna til Alþjóðadómstólsins í Haag fæst úr því skorið endanlega hver réttur Íslands og allra annarra aðildarþjóða er í raun en ekki hvað Norðmenn álita að hann sé. Ýmsir embættismenn hafa látið hafa eftir sér að Norðmenn séu ekki vissari en svo um rétt sinn að enginn íslenskur togari hafi verið tekinn vegna meintra ólöglegra veiða. Hið rétta er að Hæstiréttur í Noregi dæmdi skipstjóra og útgerðir tveggja togara til sekta árið 1994 vegna veiða innan fiskverndarsvæðisins. Var niðurstaðan sú að aðgangur að svæðinu væri skammtaður með tilliti til veiðireynslu og slíka reynslu hefðu Íslendingar ekki. Tveir lögspekingar sem Fréttablaðið leitaði álits hjá treystu sér ekki til að meta réttarstöðu Íslands færi Svalbarðadeilan alla leið til dómstóla þar sem hvorugur hafði kynnt sér málið til hlítar. Ljóst má þó vera að ekki er víst að úrskurður alþjóðadómstóls verði endilega Íslendingum í hag. Engar forsendur eru til að ætla slíkt þar sem stofnsamningur Svalbarða er einstakur og því engin fordæmi til í alþjóðlegu réttarkerfi. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda virðist ekki vera tekin ýkja alvarlega í Noregi ef marka má fjölmiðlaumfræðu um málið. Norska ríkisútvarpið hefur ekki séð ástæðu til að birta grein um stöðuna sem upp er komin og ekkert var um málið á norskum sjónvarpsstöðvum í gær. @.mfyr: Nóg veiði en mikið eftirlit Gylfi Viðar Guðmundsson, skipstjóri á Huga frá Vestmannaeyjum, var að landa á Neskaupstað eftir langan túr frá Svalbarða. "Þetta er dágóð vegalengd. Við erum tæplega þrjá sólarhringa á leiðinni en það er vel þess virði ef vel fiskast. Sannast sagna erum við að meta hvort við förum aftur á þessar slóðir." Gylfi segir að veiðarnar hafi gengið mjög vel allan tímann. "Það liðu þarna nokkrir dagar sem við veiddum ekkert þar sem við þurftum að gera að svo miklum afla. Við frystum um 90 tonn á sólarhring og í það þarf 200 tonn af síld. Hins vegar voru Norðmennirnir duglegir við að koma um borð og kanna alla hluti. Eitt skipti komu þeir fyrir hádegi og fóru ekki aftur fyrr en seint um kvöldið." Fimm íslensk fiskiskip voru að veiðum við Svalbarða þegar Norðmenn lokuðu fyrir veiðar að kvöldi 15. ágúst. Tvö þeirra héldu þaðan í Smuguna en lítið orðið vart enn sem komið er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×