Innlent

Hyggst beita Impregilo dagsektum

Staðfest hefur verið að ennþá er tvímennt í svefnskálum ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo þrátt fyrir að herbergisstærð sé undir 8 fermetrum. Slíkt er skýlaust brot á reglugerðum og hyggst Heilbrigðisnefnd Austurlands leggja á sektir ef úrbætur verða ekki gerðar fljótlega. Impregilo fékk í febrúar síðastliðnum undanþágu til að fleiri en einn gætu deild herbergi en aðeins með þeim fyrirvara að stærð hvers herbergis færi ekki undir átta fermetra. Enn er tvímennt í sautján slíkum herbergjum og hafa yfirmönnum Impregilo verið send formleg áminning vegna þessa. Það er ekki eina áminningin sem heilbrigðiseftirlitið sendir upp á hálendið fyrir austan. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og fresti eru ekki enn komnar upp ræstilaugar í svefnskálum í aðalbúðum né heldur í svefnskálum starfsmanna í Tungu sem er annar af þremur starfsmannabúðum Ítalanna. Heilbrigðiseftirlitið hefur engin svör eða útskýringar á töfum fengið frá Impregilo og mun sektarákvæðum verða beitt í byrjun september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×