Sport

Frábært hjá 16 ára liðinu

Íslenska 16 ára landsliðið í körfubolta kórónaði einstakt sumar með því að tryggja sér sigur í sínum riðli í B-deild Evrópukeppninnar og gera Ísland að A-þjóð þangað sem komast bara 16 af bestu körfuboltaþjóðum álfunnar. Íslenska liðið vann sjö af níu leikjum sínum í riðlinum líkt og Makedónar en sigur liðsins í framlengingu í innbyrðisviðureign þjóðanna tryggir toppsætið. Að baki eru 14 leikir við margar af betri körfuboltaþjóðum Evrópu og liðið hefur unnið bæði mótin og 11 af 14 leikjum sínum. Benedikt Guðmundsson hefur náð frábærum árangri með liðið. "Það að vera kominn í lokakeppni er eitthvað sem er ótrúlegt og enginn skilur hérna úti á mótinu. Ég gerði mér vonir eftir sigurinn á Norðurlandamótinu að þetta lið gæti náð langt í þessum riðli og verið í efri hlutanum. Svona árangur kemur ekki án þess að það sé búið að leggja mjög mikla vinnu á sig og það er einstakt að verða vitni af því hvað liðið er að spila á háu stigi. Maður sér það þegar maður fer á þessi mót úti og þessir strákar eiga bara heima í A-riðlinum. Við vinnum þessar B-þjóðir sem sumar eiga að vera sterkari en við en svo toppum við þetta með því að vinna eina virkilega sterka A-þjóð," sagði Benedikt. "Eins og þetta fáránlega fyrirkomulag er þá fara þessir strákar aftur í B-keppni eftir tvö ár og það eru því 1989-strákarnir sem njóta góðs af því að við unnum þetta. Liðið sem á virkilega heima í A-keppninni það fær ekki að fara í A-keppnina," sagði Benedikt sem hefur náð sögulegum árangri með liðið í sumar. Fyrirliði liðsins, KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson, skoraði 23,4 stig að meðaltali í leik á mótinu, þar á meðal 38 stig í einum leikjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×