Sport

Hver hörmungin rekur aðra

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, lýsir undirbúningstímabili liðsins þetta árið sem því versta frá því að hann tók við liðinu fyrir átján árum. Ferguson hefur verið með sína menn í Bandaríkjunum undanfarna daga og þar hefur hver hörmungin rekið aðra. Tveir af lykilmönnum hans, Portúgalinn Cristiano Ronaldo og Argentínumaðurinn Gabriel Heinze, þurfa að spila með sínum þjóðum á Ólympíuleikunum í Aþenu og missa af sex fyrstu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni. Að auki hafa margir leikmanna liðsins átt í meiðslum þrátt fyrir að vellirnir í Bandaríkjunum hafi verið betri en Ferguson hefur átt að venjast á undirbúningstímabilinu. "Yfirleitt eru vellirnir harðir á undirbúningstímabilinu og hitinn mikill en hér hafa þeir verið frábærir og hitastigið verið í lagi. Samt eru menn að meiðast á mismunandi stöðum sem er mjög óvanalegt. Ryan Giggs er meiddur á mjöðm, Wes Brown er meiddur í hælnum, Darren Fletcher er meiddur á ökkla og Quinton Fortune er meiddur á kálfa. Þetta er versta undirbúningstímabil sem ég hef upplifað," sagði Ferguson en liðið hefur tapað báðum leikjum sínum í Bandaríkjunum. Fyrst gegn Bayern München í vítaspyrnukeppni og síðan gegn Celtic.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×