Sport

Brasilía Suður-Ameríkumeistari

Brasilía sigraði Argentínu í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í knattspyrnu, elstu keppni landsliða í heiminum, í gærkvöldi. Markakóngur keppninnar, Adriano, jafnaði metin fyrir Brasilíu í uppbótartíma, 2-2, með síðustu spyrnu leiksins og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem Brasilía hafði betur, 4-2. Þetta var sjöundi sigur Brasilíu í Suður-Ameríkukeppninni og sýnir að engin þjóð hefur úr öðrum eins knattspyrnumönnum að moða því Brasilía tefldi fram b-liði sínu í keppninni. Adriano var markakóngur með sjö mörk en hann er fyrsti knattspyrnumaðurinn til að skora fleiri en sex mörk í keppninni síðan hinn eini og sanni Pele skoraði átta mörk árið 1959. Þjálfari Brasilíu, Carlos Alberto Parreira, sagði að hroki og ögrandi framkoma Argentínu undir loks leiksins hefði orðið þeim að falli. Suður-Ameríkumótið í ár er það besta í háa herrans tíð og sigur fyrir suðurameríska knattspyrnu sem hefur átt undir högg að sækja. Engum leik í mótinu lyktaði með markalausu jafntefli. Alex, leikmaður Brasilíu, sést hér hampa Suður-Ameríkubikarnum. Joseph Blatter, forseti FIFA, er honum á hægri hönd og Diego, samherji Alex, fagnar fyrir aftan hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×