Sport

Birgir Leifur jafnaði vallarmetið

Veðrið setti strik í reikninginn hjá kylfingum á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Garðavelli á Akranesi. Það var logn og blíða um morguninn en svo fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Vegna úrhellisins ákvað því mótsstjórn Íslandsmótsins á Akranesi síðdegis í gær að fresta leik. Vegna bleytunnar var orðið ófært að pútta á flestum flötum vegna pollamyndunar. Leik verður haldið áfram í fyrramálið og þá frá því sem horfið var í dag. Ræst verður út klukkan sex í fyrramálið en þá klára þeir keppendur sem ekki náðu að ljúka leik í gær. Eftir það verður raðað eftir skori og stefnan er sett á að byrja að ræsa út í þriðja hring klukkan tíu. Ekki var þó þessi frestun það eina markverða sem gerðist á Íslandsmótinu því Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG gerði sér lítið fyrir og lék á 68 höggum og jafnaði þar með vallarmet sitt frá því á fimmtudag. Frábær spilamennska hjá Birgi og vandséð að nokkur kylfingur eigi möguleika í pilt eins og hann er að spila núna. Reyndar voru fleiri en Birgir að leika vel í gær því þeir Björgvin Sigurbergsson, GK, og Heiðar Davíð Bragason, GKJ, léku báðir á 69 höggum. Birgir er því með átta högga forskot á næsta mann sem er Örn Ævar Hjartarson úr GS en hann lék hringinn í dag á 72 höggum. Þegar ákveðið var að fresta leik þá var kvennaflokkurinn ekki nema rétt tæplega hálfnaður með hringinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×