Sport

Fjölnismenn í bætingu

Fjölnismenn, sem spila í fyrsta sinn undir eigin merkjum í úrvalsdeild karla á næsta tímabili, tryggðu sér annað sætið á Hraðmóti ÍR í körfubolta með öruggum sigri á slökum Njarðvíkingum, 93-84, í síðasta leik mótsins. Fjölnismenn töpuðu illa í fyrsta leiknum sínum gegn KR en bættu sig með hverjum leik, unnu ÍR-inga, 76-68, í öðrum leik sínum og svo Njarðvíkinga í lokaleiknum þar sem þeir náðu mest 23 stiga forustu. Pálmar Ragnarsson lék mjög vel í mótinu og var stigahæstur hjá Fjölni í öllum þremur leikjunum. Pálmar var með 22,7 stig, 9,3 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali í leik í mótinu en annars var allt Fjölnisliðið að blómstra í síðasta leiknum gegn Njarðvík. Í þeim skoraði meðal annars Guðni Valentínusson 25 stig og þá var Tryggvi Pálsson með 15 stig. Páll Kristinsson lék þarna sinn eina leik í mótinu og var með 30 stig og 14 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×