Sport

KR-ingar ekki af baki dottnir

Íslandsmeistarar KR láta ekki deigan síga þrátt fyrir að vera dottnir út úr Evrópukeppninni og slæma stöðu í Landsbankadeildinni. Þeir eru þegar farnir að huga að leikmannahópnum fyrir næsta tímabil og Kristinn Kjærnested, stjórnarmaður í KR Sporti, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að færeyski landsliðsmaðurinn Rógvi Jacobsen, sem skoraði í báðum landsleikjunum gegn íslenska landsliðinu í fyrra, væri sá sem KR-ingar beindu sjónum sínum helst að. "Við höfum verið í sambandi við HB í Færeyjum varðandi Rógva Jacobsen en þeir hafa ekki viljað sleppa honum hingað til. Samningur hans við félagið rennur út í haust og við höfum þegar boðið honum tveggja ára samning sem hann tók mjög vel í. Hann er að klára "timburmanninn" í Færeyjum sem útleggst sem húsasmíðameistari á okkar ástkæra máli og hlakkar mikið til að koma til landsins. Hann er gífurlega öflugur framherji, stór og sterkur og kemur með kraft sem okkur hefur sárlega vantað í sumar," sagði Kristinn. Hann sagðist vonast til að heyra frá HB fljótlega en það væru hverfandi líkur á því að Rógvi kæmi til liðsins áður en þetta tímabil væri úti. "Við bíðum rólegir en það er alveg ljóst að að það þarf að hressa verulega upp á leikmannahópinn hjá okkur fyrir næsta tímabil. Þá hljótum við að beina sjónum okkar að markahæsta manni deildarinnar sem er með lausan samning í haust. Gunnar Heiðar Þorvaldsson er verulega spennandi kostur og ég tel það nánast öruggt að við munum reyna að fá hann til liðsins fyrir næsta tímabil," sagði Kristinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×