Sport

Armstrong samur við sig

Bandaríkjamaðurinn Lance Armstrong kom fyrstur í mark á 17. áfanga Frakklandshjólreiðanna, Tour de France, í dag, sjónarmun á undan Andreas Kloeden frá Þýskalandi. Hjóluð var 204,5 kílómetra leið í frönsku Ölpunum og var tími Armstrongs 6 klukkustundir, 11 mínútur og 52 sekúndur. Tími Kloedens er skráður sá sami. Þjóðverjinn Jan Ullrich kom þriðji í mark, aðeins sekúndu á eftir Armstrong og Kloeden. Armstrong tók ekk forystuna fyrr en u.þ.b. 25 metrar voru eftir af leiðinni en var hins vegar í forystuhópnum nánast alla tímann. Þetta var fjórði sigur Armstrongs í þeim fimm fjallaleiðum sem hjólaðar hafa verið í keppninni. Aðeins þrjár dagleiðir eru eftir þar til keppninni lýkur í París á sunnudag. Lance Armstrong stendur vel að vígi, hefur hjólað 3.006,6 kílómetrana sem lokið er á 74:04,56 klukkustundum og er með 4:09 mínútna forskot á næsta mann, Ítalann Ivan Basso. Kloden er 5:11 mín. á eftir í þriðja sæti og Ullrich fjórði 8:08 á eftir. Ef Armstrong vinnur verður hann fyrsti hjólreiðamaður sögunnar sem vinnur Tour de France sex sinnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×