Sport

Vilhjálmur slasaður enn og aftur

NordicPhotos/GettyImages
Það á ekki af honum Vilhjámi Halldórssyni, handboltakappa úr Val, að ganga. Enn einn ganginn er hann brotinn en hann lenti í því um daginn að falla fram af húsþaki við vinnu og tvíbrjóta á sér vinstri hendina. Vilhjálmur, sem starfar við íþróttaskóla í sumar, gekk til liðs við Valsmenn í vor eftir að hafa alið allan sinn aldur í Stjörnunni en hann er ein allra efnilegasta skyttan sem við eigum og er án efa framtíðarlandsliðsmaður. Óheppnin hefur þó elt hann á röndum og þetta er í áttunda skiptið sem Vilhjálmur verður fyrir því óláni að brotna: "Ég er bara 22 ára og hlýt núna að vera búinn að taka út meiðslakvótann. Þetta er komið nóg en þó verð ég að segja að það var í raun lán í óláni að ég skyldi ekki slasast meira við þetta fall," sagði Vilhjálmur sem sagði ekkert annað þýða en að líta á björtu hliðarnar. "Ég er að vonast til að sleppa við að fara í aðgerð en ég brotnaði á sama stað núna og í janúar síðastliðnum og læknirinn telur helmingslíkur á því að ég þurfi að fara í aðgerð. En hvernig sem fer þá stefni ég á að mæta í toppformi til leiks í sumar og ég trúi ekki öðru en að þessu beinbrotum fari að linna," sagði Vilhjálmur Halldórsson, hinn afar óheppni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×